Með hlýju í hjarta og bros á vör gleður okkur að tilkynna að danskennsla hefst samkvæmt stundaskrá á miðvikudaginn eða þann 18. nóvember.
 
Samkvæmt nýjustu reglugerð heilbrigðisyfirvalda er heimilt að hefja íþróttastarf barna og unglinga að nýju þann 18. nóvember næst komandi. Í reglugerðinni kemur fram að til að slíkt starf geti hafist eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldatakmörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Börn í 1.-4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5. – 10. bekk að hámarki 25 saman. Kennsla fer fram í tveimur sölum á sama tíma, með sitthvorum kennaranum, hjá þeim hópum sem eru með fleiri nemendur en leyfilegt er samkvæmt reglugerð.
 
Grímunotkun
Í reglugerð kemur fram að 2 metra nálægðartakmörkun gildir fyrir nemendur í 5.-10. bekk en ef víkja þarf frá henni ber nemendum að nota grímu. Í sameiginlegum rýmum, svo sem við innganga, í anddyri, á salernum og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að nemendur og starfsfólk notist við andlitsgrímu. Við biðjum því alla nemendur 10 ára og eldri að vera með grímur þegar þeir mæta í danstíma og setja þær aftur upp áður en þeir yfirgefa danssalinn. Við höldum 2 metra fjarlægð í danssalnum og því er ekki þörf á grímunotkun í danstímanum sjálfum. Það er að sjálfsögðu undir hverjum og einum komið ef nemendur vilja dansa með grímu. Kennarar munu halda áfram að bera grímu í danskennslunni eins og áður. Nemendur í 1.-4. bekk eru undanskyldir grímuskyldu og það nær yfir alla yngstu dansarana okkar í 7-9 ára hópum.
 
Nemendur fæddir 2004 og fyrr
Enn er hlé á danskennslu hjá nemendum fæddir 2004 og fyrr. Núverandi takmarkanir gilda til 2. desember. Þetta á við um eftirfarandi hópa: 16 plús, 18 plús og DansFit. Við verðum sérstaklega í sambandi við þessa danshópa á næstu dögum.
 
Foreldrar komi ekki inn í stöðvarnar
Minnum á að enn er óheimilt fyrir foreldra að koma inn í íþróttamannvirkin. Við biðjum ykkur því að skilja við nemendur fyrir utan stöðvarnar og bíða eftir þeim fyrir utan stöðvarrnar þegar þið sækið börnin ykkar í danstíma.
 
Engin netþjálfun næstu tvo daga
Engin netþjálfun mun fara fram í dag, mánudag, og á morgun, þriðjudag. Við munum bæta þessa tíma upp. Eins og áður hefur komið fram þá bætast uppbótarvikur aftan við önnina og haustönn teygist lengra inn í desember. Við sendum út skipulag varðandi uppbótarvikur síðar í vikunni.
 
Hlökkum rosalega til að hitta alla dansarana okkar aftur í vikunni. Kennarar verða með risastórt bros á bakvið grímuna, þeir brosa allavega extra mikið með augunum svo það skili sér 
 
Getum ekki beðið eftir að byrja að dansa. Eigið yndislegan dag og sjáumst á miðvikudaginn og fimmtudaginn.