Í ljósi nýjustu tilmæla í tengslum við samkomubann vegna Covid-19, þá mun nemendasýningin okkar ekki fara fram í lok maí, eins og stóð til. Það gleður okkur þó að tilkynna að við höfum fært sýninguna fram á haustið og mun hún fara fram helgina 12. og 13. september.
Þrjár vikur voru eftir af vorönn þegar samkomubann skall á og það fá allir sína tíma sem eftir eru af vorönn. Við munum nýta þessar þrjár vikur í undirbúning fyrir sýninguna. Dansæfingar hefjast því aftur 25. ágúst og fara fram á sömu tímum og áður, það er engin breyting þar á. Þá munu kennarar rifja upp atriðin með nemendum og samstilla hópana eftir langa pásu frá atriðunum.
Skipulag á sýningu helst óbreytt
Allt útgefið skipulag í tengslum við sýninguna helst óbreytt.
Miðar á sýninguna
Allir keyptir miðar gilda á nýjar dagsetningar, sömu sæti, sama tímasetning. Engar áhyggjur af því. Við erum að vinna í því með Borgarleikhúsinu að uppfæra þessar breytingar á dagsetningum og munum láta vita þegar miðasala fer aftur af stað.
Þetta eru svo sannarlega óvanalegar aðstæður en við erum með algjörlega frábæra sýningu í höndunum og hlökkum til að vera með ykkur í Borgarleikhúsinu í haust. Getum ekki beðið eftir að deila deginum með dönsurunum okkar í leikhúsinu og halda upp á einn skemmtilegasta dag ársins. Haustönn hefst síðan strax á mánudeginum eða þann 14. september. Þetta er því frábær gleðisprengja og gott pepp inn í nýja önn og markmiðasetningar fyrir hana.
Sumarnámskeið
Sumarnámskeið fara af stað í júní. Við munum gefa út dagsetningar þegar World Class má opna aftur. Í millitíðinni munum við fylgjast vel með framvindu mála og upplýsum ykkur um leið og við vitum meira. Við stefnum þá á tvö stutt námskeið svo bindingin sé ekki mikil og henti inn í plön hjá fjölskyldum um sumarfrí.
Þangað til vonum við að allir hafi það gott og við getum ekki beðið eftir því að hitta nemendur á sumarnámskeiði.