Skráðu þig á haustönn!
Skráning er nú formlega hafin á haustönn 2015. Komdu og lærðu hjá þeim bestu. Úrvalskennarar kenna hverjum danshóp og hafa þeir það að markmiði að hjálpa nemendum að ná markmiðum sínum og verða fjölhæfir dansarar. Danskennarar skólans eru þaulreyndir kennarar og danshöfundar og er skemmst frá því að segja að nokkrir þeirra eru þeir vinsælustu í kvikmynda-, auglýsinga- og skemmtanaiðnaðinum hér á landi.
Haustönn skólans hefst 7. september og spannar 12 vikur. Við bjóðum upp á markvisst og framsækið dansnám til þess að hámarka árangur nemenda. Við bjóðum upp á nýjungar í dansnáminu þar sem nemendur geta nú sótt valtíma og þar með sótt danstíma þrisvar sinnum í viku.
Í boði verður dansnám fyrir danshópa 7-9 ára, 10-12 ára, 13-15 ára, 16 plús og 20 plús. Nemendur í yngri flokkum, 7-9 ára og 10-12 ára, geta sótt danstíma tvisvar eða þrisvar viku en nemendur í 13-15 ára danshópum og eldri geta sótt tíma fjórum sinnum í viku. Er það valfrjálst.
Skipulag námskeiðsins
Skipulag í kennsluskrá er miðað út frá því að nemendur nái að hámarka árangur sinn. Ekki er fastur kennari á danshóp heldur fær hver danshópur nýjan kennara sem sérhæfir sig í ákveðnum dansstíl í þriðju hverri viku. Áherslan er lögð á dýpri skilning á hverjum dansstíl og er danskennslan markviss í hverjum tíma. Þeir dansstílar sem teknir eru fyrir á námskeiðinu eru Jazz, Nútímadans, Lyrical, Modern, Hip Hop, House og Commerical dansar.
Valtímar
Markmið valtíma er að auka skilning og getu í tækniæfingum og túlkun eða svokölluðum “performance” tímum. Valtímar eru ætlaðir til þess að auka árangur nemenda og vald þeirra á þeim æfingum sem kennarinn leggur fyrir í danstímum. Áherslur valtíma eru mismunandi í hverri viku þar sem farið verður í tækni nútímadansi, túlkun og tjáningu, einangrun vöðvahópa í commercial dönsum, uppbyggingu í kóreógrafíu og acrobatic (grunnæfingar í fimleikum), en fimleikaæfingar eru mikilvægar í dansstílum á borð við jazz og nútímadans.
Danskeppni í lok námskeiðs
Innanhús danskeppni mun fara fram í lok námskeiðsins. Er hún ætluð til þess að auka reynslu nemenda og bæta framkomu. Tilgangur keppninnar er einnig að ýta undir persónulega sköpun nemenda og að þeir nýti það sem þeir hafa lært á námskeiðinu í tækni og túlkun. Það er mikilvægt fyrir nemendur okkar að koma fram og viljum við skapa eins mörg tækifæri og við mögulega getum.
Taktu þátt í hreyfingunni og vertu með!