Spennandi haustönn framundan
Það er spennandi önn framundan hjá dansskólanum og hefst haustönn formlega þann 8. september næst komandi. Skólinn hefur stækkað ört á síðustu misserum og er hann nú annars stærsti skólinn á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn skólans eru stoltir af því og þeim framförum sem nemendur okkar hafa tekið að undanförnu. Því ríkir mikil eftirvænting eftir því að hefja dansnámið af fullum krafti að nýju.
Haustönn 2013 innleiddum við nýja kennsluskrá sem er að erlendri fyrirmynd en allir danshópar fá nú til sín gestakennara í tvær vikur á tímabilinu. Gestakennarar koma inn í alla hópa og kenna aðra dansstíla en fastir kennarar einblína á og veita nemendum innsýn og kennslu í þeim fræðum sem tengjast viðkomandi stíl. Þannig eykst fjölbreytni nemenda og dýpkar skilning þeirra á líkamanum og virkni hans í senn. Nemendur og foreldrar voru hæstánægðir með þetta skipulag síðasta haust og er það mikið ánægjuefni fyrir aðstandendur og skipuleggjendur skólans.
Á haustönn fara ávallt fram tveir stórir viðburðir innan skólans en það er dansbikarkeppnin DanceOff, Jólaballið og að sjálfsögðu myndbandið Jólakveðjan sem tekin er upp í tengslum við Jólaballið í lok annarinnar. Auk þess er um aðra minni viðburði að ræða og verða þeir auglýstir þegar nær dregur.
Tilhlökkun og eftirvænting er mikil og er skráning hafin hér á heimasíðu og í næstu World Class stöð. Við hvetjum ykkur til þess að ganga frá skráningu hið fyrsta þar sem um takmarkað pláss er að ræða í hópa og getum við ekki tekið frá pláss. Biðlistar eru hins vegar opnir og til taks er hópar fyllast.
Hlökkum til að taka á mót nemendum og nýnemum í september.