SAGA SKÓLANS
Dansstúdíó World Class er dansskóli á Íslandi staðsettur í Reykjavík og nágrenni með kennslu frá september til apríl ár hvert ásamt því að halda styttri sumarnámskeið og önnur námskeið fyrir dansþyrsta nemendur.
Dansstúdíó World Class var formlega stofnað af Hafdísi Jónsdóttur árið 1987. Var skólinn þá starfræktur í formi námskeiða í World Class í Fellsmúla. Var engin breyting þar á þar til árið 2004 en þá opnar World Class í Laugum og starf skólans verður viðameira í kjölfarið. Á árunum 2004-2007 er skólinn undir stjórn Nönnu Ósk Jónsdóttur. Á því tímabili færir fyrirtækið út kvíarnar og opnar World Class í Spönginni í Grafarvogi. Haustið 2007 tekur Stella Rósenkranz Hilmarsdóttir, núverandi deildarstjóri, yfir rekstri dansskólans og hefur stýrt honum alla tíð síðan við góðan orðstír. Hún hefur leitt skólann áfram í stöðugri þróun og hefur alla tíð haft stór markmið fyrir DWC.
REGLUR DANSSKÓLANS
Dansskólinn prédikar ekki boð og bönn en það eru nokkur atriði sem nemendur og forráðamenn skulu kynna sér vel:
1. MÆTING
Skólinn leggur ríka áherslu á ástundun og stundvísi. Mikilvægt er að nemendur séu mættir tímanlega í danstíma sína. Stundvísi er góður kostur í fari fólks og hvetjum við nemendur okkar til þess að temja sér að vera tilbúnir í danstíma 5 mínútum áður en hann hefst. Ef nemandi missir af tíma þá er gott að biðja samnemanda að hjálpa sér og fara með sér yfir sporin fyrir næsta danstíma. Kennari kennir ekki allt efnið frá fyrri tíma frá grunni þó svo að upprifjun fari að sjálfsögðu fram í tímanum.
2. DANSFATNAÐUR
Réttur dansfatnaður í danstíma skiptir miklu máli. Mikilvægt er að nemendur séu tilbúnir í dansfötum. Þegar við segjum dansföt þá er átt við fatnað úr teygjanlegu og þægilegu efni. Föt sem auðvelt er að hreyfa sig í og hamlar nemendur ekki á neinn hátt í hreyfigetu. Gallabuxur og annar fatnaður úr stífu efni er ekki ákjósanlegur í danstíma. Það sama á við um skart.
3. VATNSBRÚSI
Vatnsflöskur eru nauðsynlegar í danstíma. Mörgum þykir gott að hafa vatnsbrúsa meðferðis á æfingar og hvetjum við nemendur eindregið til þess. Mikilvægt er þó að mæta með góðan vatnsbrúsa eða ganga úr skugga um að vatnflöskur séu með áföstum tappa sem hægt er að skrúfa af og á.
4. HÁR
Við mælum eindregið með því að nemendur noti teygju í hárið og greiði það frá andliti. Slegið hár er ekki gott í danstíma því það á það til að flækjast fyrir.
5. EKKERT TYGGIGÚMMÍ
Tyggigúmmí er ekki leyfilegt í danstíma. Ruslafötur er að finna í búningsklefum og á klósettum allra World Class stöðva og þar skal henda tyggigúmmíi fyrir danstíma.
6. MATUR Í SAL
Enginn matur eða drykkjarföng, fyrir utan vatn, er leyfilegur í danssal.
7. ÚTISKÓR
Mikilvægt er að fara ekki inn í danssal á útiskóm. Ef nemendur ætla sér að dansa í skóm þá þurfa þeir að koma með auka dansskó með sér sem þeir klæða sig í á staðnum. Það er ekki í boði að dansa í sömu skóm í danssal og notaðir eru úti. Þá sérstaklega þegar kaldur og blautur vetur lítur dagsins ljós og væta er á götum.
8. BÚNINGSKLEFAR
Við hvetjum nemendur okkar til þess að nýta sér búningsklefa World Class. Nemendum er frjálst að nota þá skápa sem í boði eru á meðan danstími stendur yfir. Huga þarf að því að nemendur mæti með lás með sér, til þess að læsa skápnum. Dansstúdíó World Class ber ekki ábyrgð á fatnaði og lausamunum nemenda innan líkamsræktarstöðvarinnar. Allir persónulegir munir eru á ábyrgð nemenda.